Enter

Bríet Sunna

Bríet Sunna Valdemarsdóttir fæddist á þeim herrans degi 6. Október árið 1988. Dóttir Margrétar Ingimarssdóttur og Valdemars Héðins Valdemarssonar. Bríet Sunna er yngst af 5 systkinum og ung að árum byrjaði hún að feta þann veg sem hefur átt hug hennar síðan, þegar að hún söng gömul lög með pabba sínum. Bríet hafði einstakt tak á sönglistinni og duldist það engum sem heyrði rödd hennar að þar væru hæfileikar á ferð. Hún hlustaði mikið á gamalt rokk og kántrítónlist. Pabbi hennar stældi kónginn sjálfan við hin ýmsu tilefni með brilljantín, kótilettubarta og í múnderingu sem hefðu fengið kónginn sjálfan til þess að kikna í hnjánum. Saman sungu þau hina ýmsu dúetta í frístundum sínum og naut hún leiðsagnar föður síns við sönginn.

Í grunnskóla tók Bríet þátt í söngkeppni grunnskóla á suðurnesjum Samsuð 12 ára gömul. Var hún yngsti keppandinn. Bríet gerði sér lítið fyrir og vann keppnina með lagi Willie Nelson „Always on my mind“ sem Elvis gerði ódauðlegt á sínum tíma.

Bríet Sunna gekk í hljómsveit á grunnskólaárunum ásamt skólafélögum sínum og komu þau fram á árshátíð grunnskólans. Upplifunin á að syngja á sviði með hljómsveit sinni var sterk í minningunni en það sem var í vændum voru einungis draumar að kveldi til í svefnherberginu á heimili hennar í Vogum, Vatnsleysuströnd. Vinkona Bríetar skráði hana svo til leiks í þriðju seríu „Idol“ haustið 2005. Idolið var ákveðinn stökkpallur fyrir alla sem höfðu verið í felum til að láta ljós sitt skína og flaug hún áfram í prufunum. Stelpan gerði sér lítið fyrir og söng sig inn í hug og hjörtu dómara og áhorfenda sem sátu heima í stofu, límdir við einn vinsælasta sjónvarpsþátt landsins fyrr og síðar. Bríet Sunna endaði í 3.sæti og draumurinn um að gerast atvinnusöngkona byrjaði að rúlla.

Bríet Sunna fylgdi eftir góðum árángri í Idolinu og gaf út geisladisk árið 2006 í samstarfi við Einar Bárðarson, þar sem einvalalið hljóðfæraleikara og söngvara liðsinntu henni á plötunni. Á plötunni sem heitir „Bara ef þú kemur með“ spiluðu undir hjá henni meðal annars Jóhann Hjörleifs trommari Sálarinnar, gítarleikarinn Guðmundur Pétursson, píanóleikarinn Þórir Úlfars og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson úr Hjálmum. Á meðal söngvara var Jónsi í svörtum fötum, Friðrik Ómarsson að ógleymdum Stefáni Hilmarssyni. Lagið „Bara ef þú kemur með“ þar sem hún söng dúett með Stefáni Hilmarssyni fékk töluverða spilun í útvarpi og varð vinsælasta lag plötunnar. Bríet Sunna söng stíft við hin ýmsu tilefni víðsvegar um landið í kjölfar plötunnar. Nánast hvert andlit sem hafði yfir sjónvarpi að ráða á þessum tíma þekkti nafn hennar og andlit hennar hvar sem hún kom og voru undirtektirnar góðar hvar sem hún skemmti.

Það virðist vera óskrifuð regla að tónlistarfólk á Íslandi verði að taka þátt í undankeppni Evróvisjón sem Bríet Sunna gerði árið 2007 með laginu Blómabörn eftir Trausta Bjarnason við texta Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Lagið fór ekki alla leið en Bríet Sunna varð reynslunni ríkari. Hún fór í tónlistarskóla FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna) árið 2008 og nam þar söng. Í skólanum lærði hún mikið og naut þess að vera umkringd hæfileikaríku tónlistarfólki sem hún seinna tengdist betur og vinnur með enn í dag. Hún tók þátt í sýningu ásamt öðrum nemendum skólans sem bar heitið „Sálarmessan“ undir stjórn Samúels J. Samúlessonar úr hljómsveitinni Jagúar. Aftur kom hún svo við sögu Evróvisjón keppninnar þegar að hún söng bakraddir með Bödda og JJ Soul band árið 2011 þegar að þau sungu lagið „Lagið þitt“ eftir Ingva Þór Kormáksson sem einnig samdi textann við lagið.

Bríet Sunna hefur verið fengin til þess að syngja bakraddir inná fjölda laga með öðrum tónlistarmönnum. Hún tók einnig þátt í sólóplötu sem Böðvar Reynisson forsprakki Dalton bræðra gaf út árið 2009. Með Böðvari eða Bödda eins og hann er kallaður dags daglega söng hún með honum á sólóplötu hans lagið „So simple“ og bakraddir í öðrum lögum. Titillag plötunnar „So simple“ sem Böðvar samdi, fékk mikla útvarpsspilun og kom Bríet fram með honum við ýmis tækifæri í kjölfar plötunnar.

Bríet Sunna hefur sungið við allskonar tilefni s.s. afmæli, skírn, brúðkaup og jarðarfarir og hefur skapað sér gott nafn á þeim grundvelli. Að beiðni ættingja tók hún upp ásamt Davíð Sigurgeirssyni á gítar lagið „Halleluja“ eftir Leonard Cohen sem hún hafði sungið í jarðarför. Upptökum stjórnaði Böðvar Reynisson. Upprunlegi flutningurinn var aldrei hljóðritaður og var því haldið í stúdíó. Til að hafa útgáfuna þeirra sem upprunalegasta var ákveðið að taka upp í einni töku og má heyra afraksturinn undir tenglinum hljóðbrot.

Bríet hefur komið fram á tvennum útfærslum hátíðartónleikana „Með blik í auga“ og „Blik í auga 2“ sem haldin hefur verið síðastliðin 2 ár í tengslum við Ljósanótt í Reykjanesbæ undir stjórn Arnórs Vilbergssonar organista við Keflavíkurkirkju og Kristjáns Jóhannssonar. Bríet hefur farið þar fremst í flokki ásamt Valdimar Guðmundssyni söngvara hljómsveitarinnar Valdimar og Fríðu Dís Guðmundsdóttur söngkonu Klassart. Tónlistarfólk og aðrir sem koma fram á sýningunum hefur verið skipað heimafólki og hefur sýningin getið sér gott orð fyrir óaðfinnanlegan tónlistarflutning, skemmtilegum innslögum undir stjórn Kristjáns Jóhannsonar og fallegum söng.

Bríet hefur í gegnum tíðina haldið söngnámskeið fyrir börn og unglinga sem vilja njóta leiðsagnar hennar. Námskeiðin hafa verið vel sótt og margir frambærilegir söngvarar hafa komið fram í skólakeppnum og við önnur tilefni. Melkorka Rós Hjartardóttir sem hefur verið nemandi Bríetar tók þátt í söngkeppni Samfés árið 2012 þegar hún söng lag Elton John „Your Song“ af tærri list með íslenskum texta eftir Bríeti Sunnu og Gísla Þór Þórarinsson. Frammistaða hennar skilaði henni fyrsta sætið af fjölmörgum keppendum úr félagsmiðstöðum víðsvegar af landi.

Það hefur lengi verið draumur Bríetar að stofna sinn eigin söngskóla þar sem börn og unglingar geta fengið að syngja og þróast undir hennar leiðsögn, enda er mikil vöntun á slíku á Suðurnesjasvæðinu. Draumurinn er loks að rætast og er áætlað að skólinn hefji starfssemi sína í október 2012. Einnig hefur hún boðið upp á einkatíma fyrir alla aldurshópa og hefur verið mikil eftirspurn eftir því í gegnum árin.

Mikill undirbúningur liggur að baki á þessum söngferli sem hófst fyrir alvöru fyrir 8 árum síðan. Bríet hefur notið þess að eiga góða að og hefur móðir hennar verið henni stoð og stytta og reynst vel þegar mikið liggur við. Einnig hafa systkini hennar sýnt henni stuðning í gegnum tíðina. Valdemar bróðir hennar gerði sér lítið fyrir og lagði land undir fót til að koma prinsessunni á gigg víðsvegar út á land þar sem hún var ekki með bílpróf. Engu skipti hvaða dagur var eða á hvaða tíma sólarhrings, alltaf var Valdemar tilbúinn til þess að skutlast með hana ásamt að snattast fyrir hana í öðrum tilfallandi verkefnum. Einnig hefur mikið af færasta tónlistarfólki landsins verið henni innan handar og á hún þeim þúsund þakkir skildar.

Það er draumur hvers tónlistarmanns að gefa út eigið efni og hefur Bríet unnið að slíku efni og vonandi styttist biðin eftir nýju lagi í útvarpsspilun með plötuútgáfu í kjölfarið.

Nánar á vef Bríetar

 
 
Staðfesti notandanafn...