Enter

Magnús Kjartansson

 

Í dag, 6. Júlí 2011, hefur Magnús Kjartansson, tónlistarmaður, náð þeim áfanga að verða 60 ára. Í tilefni þess hafa fjölskylda og vinir í samstarfi við tónlistarmenn og Tónlist.is, hrint af stað "Tribute" eða heiðurs-verkefni. Á komandi vikum munu hinir ýmsu tónlistarmenn taka í fóstur lög úr smiðju Magnúsar og færa í nýjan búning. Meðal flytjenda eru Dikta, Selma Björns, Lay Low, Lifun, Daníel Ágúst, Helgi Björnsson, Sigga Beinteins og Helga Möller ásamt fleirum. Lögin verða aðgengileg hér á Tónlist.is.

Hljómsveitin Dikta ríður á vaðið og sendir frá sér lagið To Be Grateful eftir Magnús en lagið kom fyrst út á plötunni Lifun með hljómsveitinni Trúbrot.

Magnús Jón Kjartansson fæddist í Keflavík árið 1951. Foreldrar hans eru þau Gauja Guðrún Magnúsdóttir húsmóðir og Kjartan Henry Finnbogason f.v. lögregluvarðstjóri á Keflavíkurflugvelli. Segja má að tónlistarferill Magnúsar hafi byrjað þegar stofnuð var drengjalúðrasveit við barnaskólann í Keflavík.

Þar lék Magnús á trompett og stundaði nám á það hljóðfæri í 6 ár samfleytt, fyrst hjá lúðrasveitinni en síðan í tónlistarskóla Keflavíkur, allan tímann hjá Herbert H. Ágústssyni. Hann nam einnig píanóleik hjá Ragnari Björnssyni um tveggja ára skeið, ásamt því að leggja stund á tónfræði, hljómfræði og tónlistarsögu. Seinna stundaði Magnús nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur og namþar á trompet og píanó ásamt öðrum hefðbundnum fögum við blásarakennaradeild skólans.

Magnús hefur verið í fullu starfi sem hljómlistarmaður frá árinu 1966. Hann starfaði einnig um stund hjá ferðaskrifsstofunni Sunnu, sem hljómsveitarstjóri eigin hljómsveitar á Hótel Sögu í 5 ár og hjá Sjónvarpsmarkaðinum um þriggja ára skeið. Hann hefur leikið í ýmsum hljómsveitum og má þar nefna Echo, Nesmenn, Óðmenn, Júdas, Trúbrot, Blues Company, Mannakorn, Brunaliðið, Brimkló, Hauka, HLH flokkinn, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfana og fjölda annarra hljómsveita, sem Magnús hefur starfað með í styttri eða lengri tíma.

Magnús hefur verið afkastamikill í hljóðversvinnu, sem hljóðfæraleikari, útsetjari og upptökustjóri og eru þær komnar vel yfir 200 hljómplöturnar og geisladiskarnir sem hann hefur komið að. Sem upptökustjóri hefur hann meðal annars unnið fyrir hljómsveitirnar Júdas, Hauka, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar, B.G. og Ingibjörgu, Megas, Björgvin Halldórsson, Hallbjörn Hjartarson, Elly Vilhjálms, Vilhjálm Vilhjálmsson, Brunaliðið og Geirmund Valtýsson. Einnig hefur Magnús stjórnað upptökum á kristilegu efni fyrir Fíladelfíu, Krossinn og fyrir Skálholtsútgáfuna meðýmsum flytjendum.

Magnús hefur starfað í leikhúsum og samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Hann var hljómsveitarstjóri í uppfærslu Þjóðleikhússins á "Línu Langsokk" og sem hljóðfæraleikari í sýningunni "Örfá sæti laus". Einnig hefur Magnús unnið mikið sem tónlistarmaður í sjónvarpi; með Hermanni Gunnarssyni, þáttunum "Óskastund" og "Hræringi", ásamtþví að semja og taka upp tónlist fyrir "Stundina okkar" og marga fleirri sjónvarpsþætti og auglýsingar.

Árið 2001 kom út safnplatan To Be Grateful en á henni er að safn laga eftir Magnús og þar sést hve öflugur lagahöfundur Magnús Kjartansson er.

Birt með góðfúslegu leyfi frá Tónlist.is

 
 
Validating login...