Enter

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson eða Jón í Bankanum eins og hann var gjarnan kallaður var fæddur á Brúnum undir Eyjafjöllum 13. Júlí 1925, sonur hjónanna Bjargar Jónsdóttur húsmóður og hagyrðings og Sigurðar Vigfússonar, kennara, bónda og kirkjuorganista. Þeirra sambúð varð ekki löng því Sigurður lést um aldur fram og var Jón þá aðeins tíu ára gamall. Björg og Sigurður áttu tvö önnur börn, Guðrúnu sem býr á Hvolsvelli og Vigfús sem bjó á Hellu en er nú látinn.

Hann fluttist að Ásólfsskála með móður sinni og stjúpa Sigmundi Sigurðssyni eftir fráfall Sigurðar föður hans og ólst þar upp. Ungur fór Jón til Reykjavíkur þaðan sem leið hans lá í kennaraskólann á Laugarvatni. Þaðan fór hann aftur til Reykjavíkur og gerðist fljótlega starfsmaður Búnaðarbankans þar sem hann vann til loka ársins 1987.

“Komdu í kvöld” er fyrsta lagið og texti sem hann samdi. Náttúrubarnið Jón Sigurðsson, fékk lagið í hausinn úti á engjum 15 að verða 16 ára. Dreif sig upp í kirkjuturn á Ásólfsskála þar sem hann hafði lært á kirkjuorgelið og unnið á myrkfælni.

Fyrsta lag og texti Jóns sem kom út á plötu var Komdu niður með Soffíu og Önnu Siggu. Ástæðan fyrir að hann var kallaður Jón í Bankanum var til að greina á milli Jóns og Jóns! Samtíma Jóni voru nefnilega tveir aðrir Jónar Sigurðsynir í tónlistarbransanum. Jón Sigurðsson, nikkari, Jón Sigurðsson, Bassi og Jón í Bankanum. Ekki var það til að einfalda málið þegar Jón „Bassi“ útsetti og söng með Ragnari Bjarnasyni „Út í Hamborg“ á meðan Jón „í bankanum“ samdi lag og texta! Þar var eitt nafn ríkjandi: Jón Sigurðsson!

Jón Sigurðsson var tónlistarmaður sem vann af öllu hjarta að listinni og spilaði árum saman alla daga vikunnar nema mánudaga og þriðjudaga, ja svona oftast. Svo mikil var eljan að hann spilaði og kom fram í sjónvarpsþætti Helga Pé, „Mannstu gamla daga“ aðeins 3 mánuðum fyrir andlátið. Kona hans Helga Helgadóttir lést árið 2015.

Talið er að textar hans séu um 300 en hann sagði sjálfur að hann vissi ekki nákvæmlega hversu margir þeir væru.

 
 
Validating login...